Framtíðarskipulag skóla- og frístundastarfs á Kjalarnesi

Á fundi borgarráðs 16. júní 2016 var lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 9. júní 2016, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 8. júní 2016 á tillögu um sameiningu Klébergsskóla og Bergs. Borgarráð samþykkti tillöguna.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata þakka þær fjölmörgu góðu ábendingar sem borist hafa frá foreldrum, starfsfólki leikskóla, grunnskóla og frístundastarfs og íbúum Kjalarness varðandi áform um stofnun nýs sameinaðs leik- og grunnskóla á Kjalarnesi með samþættu frístundastarfi og tónlistarnámi. Næstu skref eru að ráða nýjan stjórnanda og skipa starfshóp um farsæla innleiðingu þessa verkefnis með aðkomu skólastjóra, starfsmanna og foreldra á Bergi og Klébergsskóla. Hér er um að ræða mjög spennandi verkefni sem mikilvægt er að nýta til að styrkja og efla samfélagið á Kjalarnesi til framtíðar.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina samþykkja sameiningu Klébergsskóla og starfsstöð leikskólans Bakkabergs á Bergi, hvorutveggja á Kjalarnesi, í þeim tilgangi að stofna samrekinn leikskóla og grunnskóla með samþættu frístundastarfi og tónlistarnámi, í trausti þess að framkvæmd sameiningar verði í góðu og gagnsæju samstarfi við stjórnendur, starfsmenn og foreldra leik- og grunnskólabarna á Kjalarnesi. Umsagnir hafa borist frá báðum skólaráðum og starfsfólki leik- og grunnskólans, foreldrafélögunum sem og hverfisráði Kjalarness. Umsagnaraðilar ítreka mikilvægi þess að í stjórnendateymi sameinaðrar stofnunar veljist stjórnendur sem hafi faglega menntun og sýn á öll þau svið sem hin nýja sameinaða stofnun á að ná yfir og jafnræði þarf að vera með stjórnendum til að tryggja jafnar áherslur skólastiganna í breytingaferlinu.

Tilkynnist hér með að samþykkt hefur verið að sameina Klébergsskóla og starfsstöð leikskólans Bakkabergs á Bergi.

Auglýsing um stöðu skólastjóra:

http://reykjavik.is/laus-storf?starf=00000731

pdfSjá nánar